31. þing Sjómannasambands Íslands krefst þess að stjórnvöld tryggi Landhelgisgæslu Íslands nægt fé til rekstrar. Sérstaklega á þetta við um rekstur þyrlusveitarinnar. Lífsspursmál er fyrir íslensku þjóðina að þyrlur séu til staðar þegar slys eða veikindi ber að höndum eins og dæmin sanna. Til að öryggi sé sem best tryggt þarf að mati þingsins að staðsetja þyrlur víðar um landið en nú er gert. Jafnframt fagnar þingið þeim áformum stjórnvalda að leggja fram aukið fé til þyrlukaupa.
31. þing Sjómannasambands Íslands bendir á auknar siglingar skemmtiferðaskipa umhverfis landið. Mikilvægt er að til sé hér á landi viðbragðsáætlun þannig að ekki verði stórslys verði óhapp vegna aukinnar umferðar þessara skipa.
31. þing Sjómannasambands Íslands hvetur áhafnir skipa og stjórnendur útgerða til að sjá til þess að björgunaræfingar séu haldnar reglulega um borð eins og lög og reglur mæla fyrir um. Því telur þingið nauðsynleg að tryggt verði fjármagn í að fylgja þessu eftir með opinberu eftirliti. Jafnframt telur þingið nauðsynlegt að öll áhöfnin staðfesti með undirskrift að æfing hafi verið haldin um borð. Þannig er komið í veg fyrir málamyndaæfingar. Einnig skorar þingið á yfirmenn fiskiskipa að sjá til þess að nýliðar fái lögbundna fræðslu um öryggisbúnað og hættur um borð.
31. þing Sjómannasambands Íslands beinir þeim tilmælum til Slysavarnaskóla sjómanna að taka upp samstarf við slysavarnadeildir, slökkvilið og stéttarfélög sjómanna víðs vegar um landið um að koma á endurmenntunarnámskeiðum í heimabyggð.
31. þing Sjómannasambands Íslands þakkar Slysavarnaskóla sjómanna fyrir frábært starf að slysavörnum og hvetur jafnframt til áframhaldandi árvekni í þessum málaflokki.
31. þing Sjómannasambands Íslands mótmælir harðlega þeirri tilhneigingu einstakra útgerðarmanna að fækka í áhöfn skipa á kostnað öryggis skipverja. Þingið hvetur stjórnvöld til að láta gera rannsókn á afleiðingum fækkunar í áhöfn vegna aukins vinnuálags sem af því leiðir. Í framhaldi verði sett lög um lágmarks mönnum fiskiskipa við veiðar eftir stærð, gerð og veiðiaðferðum.
31. þing Sjómannasambands Íslands fer fram á að sá vinnufatnaður sem útgerðin lætur skipverjum í té sé frá viðurkenndum framleiðendum sem sérhæfa sig í framleiðslu sjófatnaðar. Þingið ítrekar að útgerðarmenn standi við ákvæði kjarasamningsins hvað þetta varðar. Vinnufatnaður verði jafnframt keyptur í samráði við áhafnir.
31. þing Sjómannasambands Íslands krefst þess að stjórnvöld samræmi reglur um vinnuaðstöðu sjómanna til jafns við reglur um vinnustaði í landi, t.d. um loft- og neysluvatnsgæði og hávaða á vinnustað.
31. þing Sjómannasambands Íslands hvetur Samgöngustofu til að fylgjast vel með öryggisbúnaði skipa og afnema allar undanþágur vegna ágalla í öryggisbúnaði. Einnig hvetur þingið til þess að allar reglur um öryggisbúnað verði samræmdar burtséð frá aldri skipa.
31. þing Sjómannasambands Íslands hvetur til þess að nýtt lögskráningarkerfi sjómanna verði tekið í notkun hið fyrsta. Það kerfi sem nú er notað er löngu úr sér gengið og lítið á það að treysta.
31. þing Sjómannasambands Íslands áréttar að öll vímu- og áfengispróf verði framkvæmd af fagfólki á heilsugæslustöð og lög um persónuvernd verði virt við slík próf