Ályktun frá Sjómannafélagi Eyjafjarðar og trúnaðarráði Félags verslunar- og skrifstofufólks Akureyri og nágrenni:
Trúnaðarráð Félags verslunar- og skrifstofufólks Akureyri og nágrenni (FVSA) og Sjómannafélag Eyjafjarðar ítreka nauðsyn þess að sveitarfélögin sýni ábyrgð og styðji við kjarasamninga með því að halda aftur af hækkunum á gjaldskrám. Heimilin í landinu hafa um þónokkurt skeið borið hitann og þungann af hárri verðbólgu í formi hækkaðs húsnæðiskostnaðar og matvöruverðs, aukinn kostnaður við grunnþjónustu er ekki þar á bætandi.
Stýrivextir voru lækkaðir um 0,5 prósentustig í gær, sem er ánægjulegt. Í kjölfarið tilkynnti Íslandsbanki um lækkun á breytilegum óverðtryggðum húsnæðisvöxtum en hækkun á breytilegum verðtryggðum vöxtum um 0,30%. Undanfarin misseri hafa okurvextir bankanna ýtt fólki úr óverðtryggðum lánum yfir í verðtryggð lán, en það er sá lánaflokkur sem Íslandsbanki hækkar vexti á. Raunvextir á verðtryggðum lánum eru mjög háir eða um 4,4%, og um 5% á óverðtryggðum lánum, til samanburðar eru raunvextir á óverðtryggðum lánum í Noregi 2,3%. Hagnaður íslensku bankanna er gríðarlegur, en samfélagsábyrgð þeirra er engin, spurning er hvort setja þurfi löggjöf um hámarksvexti á íbúðalánum.
Samfélagsleg ábyrgð þarf að ná til allra, ekki bara launafólks!
Trúnaðarráð Félags verslunar- og skrifstofufólks Akureyri og nágrenni og Sjómannafélag Eyjafjarðar